Borgarnes hefur alla tíð sinnt vel hlutverki sínu sem helsta miðstöð þjónustu og verslunar í Borgarfirðinum og einnig sem nauðsynlegur viðkomustaður alls ferðafólks á leið um landið. Á fallegum og áberandi stað steinsnar frá Borgarfjarðarbrúnni má finna þann vinsæla áningarstað Geirabakarí. Þar er gestum og gangandi ávallt séð fyrir ilmandi brauðum og kökum sem öll eru framleidd með ekta gamaldags handverki.

Upphafið og framgangurinn

Geirabakarí dregur nafn sitt af stofnanda og núverandi eiganda þess Sigurgeiri Óskari Erlendssyni. Hannn er fæddur á Siglufirði árið 1954 og hóf að læra þar bakaraiðn aðeins 16 ára gamall hjá Ingimari „Láka“ Þorlákssyni í Kaupfélagsbakaríinu og einnig um tíma hjá Theódóri Júlíussyni síðar ástsælum leikara. Þegar kom að lokahluta verklega námssins árið 1975 ákvað Sigurgeir að söðla um og klára sitt fag í nýju umhverfi suður í Borgarnesi hjá sveitunga sínum Alberti Þorkelssyni í Brauðgerð Kaupfélags Borgfirðinga. Geiri kunni vel við sig á þessum nýju slóðum enda átti hann eftir að giftast þar og setjast að með dóttur Alberts, Önnubellu.

Eftir námið starfaði Geiri við hlið tengdaföður síns í Brauðgerð KB og sinnti auk þess ýmsum öðrum störfum. Meðfram því blundaði vonin um að gerast sinn eigin herra og árið 1988 kom að því að hann, ásamt konu sinni, stofnaði Geirabakarí. Fyrsta aðsetrið var í 300 fm húsnæði að Borgarbraut 57 en þar opnaði hann jafnframt lítið konditorí kaffihús sem þá þótti nýlunda í Borgarnesi. Árið 1998 var ákveðið að víkka starfsemina enn frekar út með kaupum á Brauðgerð KB ásamt öllum tækjum og tólum.  Árið 1999 fluttist starfsemi Geirabakarís í 600 fm iðnaðarhúsnæði að Sólbakka 11. Þar hófst viðamikil brauðframleiðsla í heildsölu ásamt drefiingu í heimabyggð og í nágrannasveitarfélögunum en þau viðskipti áttu eftir að ná lengst vestur á Norðurfjörð á Ströndum. Heildsöluframleiðsla Geirabakarís stóð yfir í 2-3 ár en leið undir lok eftir að Myllan hertók brauðmarkaðinn á landsbyggðinni.

Starfsemin í dag

Frá árinu 2007 hefur öll starfsemi Geirabakarís farið fram í fallegu og bogadregnu 300 fm húsnæði að Digranesgötu 6. Þar er boðið upp einstakt úrval af brauðmeti, kökum og að öllu öðru ólöstuðu þá hafa gómsætir ástarpungarnir og snúðar með ekta súkkulaði notið sérstakrar hylli.

Einnig er boðið upp á mjölkurvörur, álegg, viðbit, súpu dagsins, salötum, smurðum samlokum og ýmsu fleiru. Veitingasalurinn getur tekið á móti um 70 manns og er þar gott gluggaútsýni til allra átta. Á góðviðrisdögum er hægt að setjast með kaffi og meðlæti við bekki og borð úti á stétt og virða fyrir sér taumlausa náttúrufegurðina vestur yfir endilangan Borgarfjörðinn. Viðskitpavinir koma í raun hvaðanæva að, hvort heldur úr heimabyggð, af sumarhúsasvæðum í nágrenninu eða beint frá þjóðveginum á leið sinni út á land. Eins og gefur að skilja er sumarið annasamasti tíminn hjá Geirabakaríi en þá er 21 starfsmaður hjá fyrirtækinu en aðeins færri að vetrarlagi. Meðfram hefðbundinni afgreiðslu, er brauðmeti keyrt út alla virka daga til nokkurra fyrirtækja á svæðinu.

Einnig er boðið upp á tilfallandi veisluþjónustu með smáréttum, snittum, brauðtertum eða kökuhlaðborðum.